Lakkrístoppar – piparbrjóstsykurstoppar

Toppar

Vá hvað það er langt síðan ég hef sett inn færslu hérna… það eru reyndar nokkrar ástæður (ekki afsaknir) fyrir því…

1. Búin að vera með flensu (sko mega flensu!)
2. Það er svo leiðinleg birta til myndatöku í desember (er komin með fullt af hlutum sem ég er búin að gera en á eftir að taka myndir af… dagsbirtu-myndataka í des… einhver góð ráð???!)
3. Brjálaður jólaundirbúningur í gangi

Okei… þá er ég komin með ástæður og afsakanir…

…. Arna er búin að vera veik heima í tvo daga, með hita og ill í maga (hjúkkit, ekki gubbuna samt). Og í gær nýtti ég daginn aldeilis vel. Nú orðið baka ég bara lakkrístoppa fyrir jólin (ég meina, af hverju að baka það næstbesta þegar þú getur bara bakað það besta?!!). Það er samt alltaf þannig að þessir toppar rata sjaldnast ofan í kökubox, fara bara beint af plötunni upp í litla (og stóra!) munna!! Við Arna (í stuði þrátt fyrir hita) tókum því fimm klst. frá í gær og bökuðum 200 lakkrístoppa og 150 piparbrjóstsykurstoppa (nú skal ég eiga í kökuboxi fyrir jóladag!!)

Í fyrra prófaði ég að setja mulinn piparbrjóstsykur í stað súkkulaðis og lakkrískurl… ef maður er lakkrísmanneskja þá er það alveg málið en mér finnst samt nauðsynlegt að hafa þessa hefðbundnu með! Annað trix sem ég komst yfir í fyrra var að þeyta eggjahvíturnar yfir vatnsbaði. Ég er búin að klúðra hundruðum toppa (frá 12 ára aldri) og var orðin hrikalega leið á þurrum, brotnum, blautum, sprungnum, föllnum toppum þegar ég datt niður á gamla bakstursbók. Í henni er sér kafli um marengs og þetta trix gefið upp… svínvirkar, hefur aldrei klikkað!!

Set uppskriftina af piparbrjóstsykurstoppunum með!

Toppar2

Piparbrjóstsykurstoppar

5 eggjahvítur
330 gr sykur
150 gr mulinn piparbrjóstsykur (einn poki Tyrkis Peber)

Eggjahvítur stífþeyttar yfir vatnsbaði (plastskál yfir potti með botnfylli af vatni, nota rafmagns-handþeytara (gott að vera í ofnhanska til að halda skálinni í pottinum))

Þeyti þar til hvíturnar byrja að stífna, bæta sykrinum úti í, þeyta lengur (ég þeyti þar til handþeytarinn getur ekki meir!)

Setja þá hvíturnar í hrærivélaskál (ég hita skálina að utan svo hún sé ekki ísköld) og þeyta í alveg 10 mín.

Berja brjóstsykurinn í spað og hræra honum saman við

Bakað við 150°c 18-20 mín, fer eftir stærð toppana

 

Comments

  1. Þetta lítur svo vel út hjá þér, allar kökurnar eins!

join the conversation

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.