Biscotti

DSC_1555

Baka baka baka…. ég er með æði þessa dagana. Þessa helgi er strandblaksmót í Fagralundi (HK Kópavogi). Við Hjördís tókum ekki þátt því hún var upptekin en ég er stollt að segja frá því að Wunderblökurnar mínar Lotta og Telma urðu í 3. sæti í B-deild!! Og þær sáu um sjoppuna með sóma. Ég bakaði skúffuköku í gær til að selja í sjoppunni. Svo gerði ég eggjamöffins í morgunmat handa fólkinu mínu. Eiki fór svo niðrí Fagralund að dæma og tók skúffukökuna með.

DSC_1561

Á meðan hann var í burtu bakaði ég Biscotti. Ég hef lengi ætlað að prófa enda finnst mér þetta kruðerí algert lostæti með teinu mínu. Þetta eru tvíbökur (bakaðar tvisvar) sem verða glerharðar og á svo að dýfa þeim í heitt kaffi, te eða kakó til að mýkja þær upp. Algert lostæti!!

Það var svo fáránlega einfalt að gera þær að það er hægt með annarri hendi (næstum því). Og sjúklega gott. Uppskriftin er úr bók Nóa Síríus, Súkkulaðiást. Læt hana fylgja með hér:

DSC_1564

Biscotti með súkkulaði og möndlum

270 g hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
30 g Cadbury’s kakó
165 g sykur
100 g möndlur, gróft saxaðar
3 egg
2 1/2 tsk vanilludropar

Hitið ofninn í 160°c. Sigtið hveitið, lyftiduft, kakó og sykur saman og bætið möndlunum út í. Blandið eggjum og vanilludropum saman við og hrærið deigið saman.

Skiptið deiginu í tvennt. Hnoðið hvorn helming fyrir sig á borðfletinum með örlitlu hveiti. Mótið helmingana í sporöskjulaga hleifa og þrýstið létt ofan á þá til að fletja þá út. Setjið hleifana á bökunarplötu sem hefur verið klædd með smjörpappír og bakið í 35 mínútur.

Takið hleifana úr ofninum og leyfið þeim að kólna. Skerið þá síðan í um það bil 1/2 cm þykkar sneiðar, raðið þeim á bökunarblötu og bakið aftur í 25 mínútur eða þar til tvíbökurnar eru orðnar stökkar.

DSC_1567

 

join the conversation

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.