Nafnateppi, frh…

Fyrir nokkrum vikum síðan bloggaði ég um nafnateppi sem ég var að gera handa litlum frænda. Ég kláraði teppið á síðustu stundu og eins og alltaf var ég að sauma niður bindinguna í veislunni sjálfri!

Þannig að ég náði ekki að taka almennilegar myndir af teppinu áður en ég gaf það en í gær fékk ég það að láni fyrir myndatökur. Hér er teppið, einlit efni og fullt af örvun fyrir lítil augu!
Og nafnið er Sölvi Kári 😉

Körfuteppi

Byrjuð að skera niður í og sauma Löngumýrarverkefnið, elska að vakna snemma á laugardagsmorgni, allir sofa og ég þarf hvergi að vera og ekkert að gera (nema sauma)!! – eigið góða helgi framundan í fallega veðrinu 🙂

Tula Pink teppi

Loksins er Tulu Pink teppið tilbúið. Dásamlegt lúruteppi með flónelefni í bakinu. Efnalínan er frá Tulu Pink og heitir Neptune.

Tula er ein af mínum allra uppáhalds efnahönnuðum. Sniðið er afModa Bakeshop og er tilvalið fyrir lagköku-pakka (10″x10″ ferninga). 48 ferningar fóru í teppið.

Pínuponsu teppi og risateppi

Eins og venjulega er ég með allt allt allt allt allt (þið náið þessu er það ekki?!!) of margt á prjónunum, heklunálinni og í saumavélinni… sko allt of margt! En það er bara svo gaman að byrja á nýju 🙂

Það klárast þó alltaf eitt og eitt í einu og nú er ég alveg að verða búin að hekla lítið teppi úr ömmuferningum. Ég er búin með 35 af 42 ferningum. Ég fór með vinkonu minni á heklunámskeið hjá Storkinum fyrir rúmu ári síðan og það kom mér á óvart hvað þetta er einfalt og skemmtilegt. Og það er eitthvað við svona ömmudúlluteppi, kósí og krúttlegt, hið fullkomna sófaverkefni.

Annað verkefni sem ég var að klára er hjónarúmsteppi. Maðurinn minn lagði fram kvörtun í fyrra, eigandi svona saumakonu en hafa aldrei eignast teppi á hjónarúmið (okei, það var reyndar eitthvað til í þessu þarna). Svo ég dreif í teppi en hef saumað það í skorpum síðan í september í fyrra. Hér er teppið komið, dásamleg efni frá Joel Dewberry. Ég er að klára bakið og svo ætla ég með það í stungu (nenni ekki að stinga svona stórt teppi heima, ef það er þá hægt).

Nafnateppi

Bráðum fer ég í nafnaveislu, hér eru efni sem eru þessa helgina að breytast í lítið strákateppi. Litli guttinn fær teppið í nafna-gjöf.

Einu sinni (fyrir all-mörgum árum) hitti ég konu sem sagðist bara sauma úr einlitum efnum og ég man að ég hugsaði hvað það hlyti að vera leiðinlegt!! Hehe, svona breytist maður, nú er ég orðin sjúk í einlit efni, bæði eingöngu en líka með mynstruðum. Svo nú ætla ég að sauma úr einlitum efnum í fyrsta sinn. Verður spennandi að sjá útkomuna.