Lítil lopapeysa á Dag Frey

DSC_4653

Litla peysan er tilbúin og Dagur tekur sig aldeilis vel út í henni. Peysan er prjónuð fyrir ca 12 mánaða en ef við brettum upp ermar má vel byrja að nota  hana strax. Ég fór í Litlu prjónabúðina og fékk tölurnar þar. Þær koma ótrúlega vel út og gera peysuna svo þjóðlega eins og hún sagði eigandinn í búðinni – ótrúleg smekkkona þar á ferð! 🙂

DSC_4657

DSC_4677

Snið/mynstur: snið upp úr sjálfri mér en notaðist við þetta mynstur – sendið mér línu ef þið viljið vita hvaða umferðir ég tók út
Stærð: ca 12 mánaða
Garn: einfaldur plötulopi frá Ístex
Prjónar: 5,5 mm
Tölur: Litla prjónabúðin

DSC_4655

DSC_4663

DSC_4671

DSC_4659

Lítil peysa

DSC_4649

Þegar Dagur var nýfæddur lá mér svo mikið á að prjóna á hann litla vagnpeysu úr einföldum plötulopa að ég áttaði mig ekki á því hvað hann myndi stækka fljótt. Peysan var strax of lítil og passar bara á dúkkur 🙂

Ég er núna búin að prjóna aðra en á eftir að ganga frá endum, þvo hana og setja tölur og hnappagatalista. Davíð Freyr (10) varð alveg sjúkur í að fá svona peysu líka svo það verður líklega næsta verkefni, stækka peysuna í hans stærð

Neonvettlingar

DSC_4595

Allt gengur út á neonliti hjá krökkunum núna. Ég er ekki mikill aðdáandi sjálf – kláraði neonið þegar ég var 10 ára með neongult gel í hárinu og í neongrifflum og skræpóttum neonbol – en sá um daginn á facebooksíðu Prjónafjörs skemmtilega vettlinga fyrir krakka (og fullorðna) úr nýja neon-lopanum. Svo ég smellti í vettlinga fyrir Andreu og Örnu og er feykiánægð með útkomuna.

Uppskriftin að þessum röndóttu er fullorðinsuppskriftin (M/L) en mér finnst hún heldur stór. Andreu finnst æði að vera í svona stórum vettlingum en ég myndi þrengja þá næst um 4 lykkjur (gera 8-10 ára vettlingana). Þessir marglitu eru handa Örnu og prjónaðir í stærð 4-6 ára.

Þær ættu a.m.k. að sjást vel í umferðinni 🙂

DSC_4628

DSC_4591

DSC_4609

DSC_4627

Mynstur: Prjónafjör
Garn: Neon Álafosslopi frá Ístex
Prjónar: 4,5 og 5,5mm

Lítill herra kominn í danska fatnaðinn

DSC_4038

Vá hvað tíminn flýgur áfram á haustin!

Við létum skíra Dag Frey litla 15. september, skólinn og allar tómstundirnar (þær eru sko ekki fáar) að komast í rútínu og svo er alltaf eitthvað að gerast um helgar, alls kyns íþróttamót, bæði hjá fullorðna fólkinu og krökkunum, bústaðaferðir ofl.

Í síðustu færslu talaði ég um að setja inn mynd af Degi litla í nýju fötunum. Ég tók myndirnar sama dag en hef ekki bloggað neitt síðan.

Hér er hann í allt of stórum en dásamlegum fötum. Peysan er enn of stór en buxurnar sleppa. Ég þarf reyndar að setja teygju í mittisstroffið á buxunum því þær eru of víðar en annars er nóg að bretta upp á skálmarnar. Buxurnar eru mjúkar og hlýjar en ekki þannig að hann svitni í þeim. Peysan er hér með tvöföldu uppábroti en axlirnar leka niður handleggina, held ég bíði í 2-3 mánuði með að nota hana á hann. Eitthvað segir mér að þessi föt eigi eftir að stækka með honum 🙂

DSC_4046

DSC_4042

 

Dönsk prjónapeysa og buxur

DSC_4004

Fyrir nokkru bloggaði ég um prjónavesti sem ég gerði á Dag upp úr dönsku bókinni Babystrik på pinde 3. Nú er ég loksins búin með afapeysuna.

Ég get ekki sagt að mér hafi þótt neitt svakalega skemmtilegt að prjóna hana enda er hún öll prjónuð 2sl, 2br þannig að prjónið víxlast. Þannig verður perluprjón á milli sl/br lykkjanna. Þetta verður samt ótrúlega fallegt prjón og svakalega teygjanlegt. Og sæt er peysan og ótrúlega falleg við buxurnar úr sömu bók.

Buxurnar voru mjög svo fljótprjónaðar. Það varð nokkur afgangur af báðum litum og var sú sem afgreiddi mig í Litlu prjónabúðinni svo snjöll að benda mér á að prjóna aðrar buxur úr afgöngunum, hafa þær t.d. röndóttar, brúnar og grábláar eða t.d. bláar með brúnu stroffi.

Hér eru myndir af flíkunum en eigandinn var sofandi þegar myndatakan fór fram. Hann ætlar því að máta síðar og þá smelli ég eins og einni mynd af til viðbótar.

Þegar ég gerði prjónavestið var ég svo vitl… að prjóna það í stærð 0-3 mánaða. Ég er enn að troða honum í það blessuðum drengnum en ákvað að prjóna buxurnar og peysuna í stærðinni 12 mánaða. Ég er búin að kaupa garn í nýtt vesti og ætla að hugsa aðeins lengra fram í tímann þegar ég prjóna það…. aftur 🙂

Peysan

Bók: Babystrik på pinde 3
Uppskrift: Morfartröje, bls. 14
Stærð: 12 mánaða
Garn: Bomuld og uld frá Geilsk, Litla prjónabúðin
Prjónar: 2,5 mm og 3,0 mm
Tölur: Litla prjónabúðin

DSC_4006

DSC_4007

Buxurnar

Bók: Babystrik på pinde 3
Uppskrift: Bukser, bls. 12
Stærð: 12 mánaða
Garn: Bomuld og uld frá Geilsk, Litla prjónabúðin
Prjónar: 2,5 mm og 3,0 mm

DSC_4016

 

DSC_4025

Ó, og eitt enn… ef þetta eru ekki skilaboð frá Móður náttúru um að halda sig bara inni í dag og prjóna og sauma þá veit ég ekki hvað!! 🙂

DSC_4028

DSC_4030

 

Barnapeysa

DSC_2041

Ég vildi að ég gæti sagst hafa prjónað þessa peysu en það væri nú aldeilis óheiðarlegt af mér að gera það 🙂

Þessa dásamlegu ungbarnapeysu prjónaði Kristbjörg, mamma hennar Önnu, heimalingsins okkar… vinkonu Andreu. Hún gaf snáðanum okkar hana þegar hann fæddist og ég er búin að vera á leiðinni að skrifa um hana hér.

DSC_2046

Ofboðslega fallegt handverk og trétölurnar passa vel við. Því miður stækka ungarnir upp úr fötunum á korteri fyrstu vikurnar og ég náði ekki mynd af honum í henni… kannski ég reyni að troða honum í hana einu sinni enn til að ná mynd! 🙂

DSC_2051

Takk aftur fyrir okkur Kristbjörg!

Strákavesti

DSC_1578

Þegar ég var ólétt keypti ég gjörsamlega guðdómlega danska prjónabók í Litlu prjónabúðinni. Bókin heitir Babystrik på pinde 3 og er eftir Lene Holme Samsöe. Þessi bók er þvílíkt augnakonfekt, með barnauppskriftum fyrir 0-2 ára. Mig langar að prjóna allar uppskriftirnar frá bls. 1 til enda – veit nú samt ekki hvað litli kallinn minn segði yfir öllum stelpufötunum! 🙂

En einhvers staðar verður maður að byrja og rétt áður en snáðinn fæddist byrjaði ég á þessu litla vesti. Því miður var ég svo vitl… að prjóna það í stærðinni 0-3 mánaða sem þýðir að hann mun stækka upp úr því á korteri. Hann er svo sætur í því að ég ætla strax að prjóna annað í stærra númeri. Ég er líka búin með sætar strákabuxur – sýni þær hér í vikunni – prjónaði þær í stærðinni 12 mánaða og er langt komin með litla afapeysu, líka í stærðinni 12 mánaða.

DSC_1581

Bók: Babystrik på pinde 3
Uppskrift: Lillies top, bls. 21
Stærð: 0-3 mánaða
Garn: Semilla fino frá BC Garn, Litla prjónabúðin
Prjónar: 2,5 mm og 3,5 mm

Campus peysa

DSC_0994

Þessa peysu ætlaði ég að prjóna upp á fæðingardeild (já ég veit… fjórða barn og maður heldur ennþá að maður hafi tíma til að prjóna upp á fæðingardeild!!!) en hún var svo fljótprjónuð að ég kláraði hana áður en við fórum uppeftir.

Ég var rétt í þessu að skella tölunum á hana. Nú er bara að “kjöta” litla kallinn upp svo hann fari að passa í hana 🙂

DSC_0962

DSC_0973

DSC_0988

DSC_0984

Peysan er prjónuð úr afgöngum af heklaða teppinu hans. Ég elska, dái og dýrka þettta garn!!

Bók: Cuddly Knits for Wee Ones
Uppskrift: Little man on campus, bls. 48
Stærð: 3 mánaða
Garn: Debbie Bliss Rialto DK
Prjónar: 4,5 mm og 5,5 mm

p.s. ef þið prjónið peysuna úr bókinni, þá eru nokkrar leiðréttingar hér. Ég skrifaði til forlagsins eftir miklar vangaveltur varðandi eitt atriði og höfundurinn, Lori, sendi mér leiðréttingarnar sjálf persónulega sem mér fannst mjög töff 🙂

DSC_1001

DSC_0997

DSC_0999

Slaufukjóllinn tilbúinn

DSC_0272

Kjóllinn hennar Örnu er loksins tilbúinn.

Hann var frumsýndur á rauða dreglinum (í Reykjafold) um páskana og verður þessi líka fíni “sautjándajúníkjóll”!!

DSC_0284

Arna er alsæl með hann og er farin að nota hann á leikskólanum (tekur því ekki að hafa svona kjóla of mikið spari, barnið vex jú, en brókin ekki :))

Eina sem ég gæti sett út á hann er að hálsmálið er helst til of lítið og þröngt, Arna þarf að trooooooðððða honum yfir höfuðið á sér… ég held að hún sé ekki með óvenju stórt höfuð! Ætli ég geri ekki bara smá klipp aftan á og setji litla tölu til að stækka málið?!

DSC_0274

DSC_0300

DSC_0310

Myndprjón

DSC_0008

Í fyrra (síðsumars) var ég stödd í Storkinum að kaupa eitthvað smálegt garn… þá henti mig, það sem stundum gerist, að ég fór að fletta blöðum og bókum. Nýjasta Debbie Bliss (spring/summer 2012) blaðið lá á borði og ég fór að blaða í gegnum það. Sá ég þá þennan líka sæta rauða “sailor” prjónakjól á litlar dúllur. Og, eins og hefur gerst áður, rankaði ég allt í einu við mér út í bíl með poka í hendi… alveg steinhissa kíkti ég í pokann og þá var bara eins og einhver hefði keypt handa mér blaðið OG garnið í kjólinn… það átti bara eftir að setja kjólinn saman!!!

Prjónakjóll06

Eftir að hafa prjónað talsvert úr íslensku ullinni (sem ég b.t.w. elska!) og flest prjónað í hring, langaði mig að prófa að prjóna svona “alvöru” flík úr fínlegra garni. Uppskriftin er auðvitað ekkert nema skammstafanir og það getur verið auðvelt að hræðast svoleiðis og henda þessu frá sér. Svo er svo skrítið að það er eins og útlenskir prjónarar hafi aldrei heyrt um að prjóna í hring! Alltaf prjónað fram og til baka, bakstykki og framstykki prjónuð sér og svo saumuð saman á eftir… jæja, ég var ákveðin í að komast yfir hræðsluna og hófst handa. Ég byrjaði á bakstykkinu, fram (sl) og til baka (br), fram (sl) og til baka (br), fram (sl) og til baka (br)… milljón umferðir. Vá hvað það er leiðinlegt að prjóna brugðið til baka, eins og það er gaman að spítta í og prjóna slétt að framan! Bakstykkið gekk annars bara vel, ekkert mál að forma ermar og auðveldara að skilja uppskriftina en maður hefði haldið í byrjun.

Prjónakjóll03

Nú kemur snilldin! Ég tók næstum klárað bakstykkið með mér norður á Löngumýri og þar sá Fríða Ágústsdóttir mig vera að prjóna… hún laumaði fingrunum í prjónana og sýndi mér miklu skemmtilegri leið (finnst mér) til að prjóna brugðið til baka… og mér finnst sú aðferð líka gefa miklu fallegra prjón. Maður snýr ekki stykkinu til að prjóna brugðið heldur prjónar maður til baka frá vinstri til hægri. Og þetta er ekkert flókið heldur (einfaldara en “okkar brugðning”). Þegar ég kom heim fann ég þessar leiðbeiningar á Youtube ef þið viljið kynna ykkur þetta.

Fríða sagði mér að hún hefði lært þessa aðferð þegar hún fór eitt sinn á námskeið í myndprjón. Stundum er eins og maður eigi að hitta ákveðna einstaklinga, engar tilviljanir. Það vill svo til að framstykkið á kjólnum er með myndprjóni í lokin!! Ég ákvað því að prjóna framstykkið allt svona. Það verður að vísu aðeins fastar prjónað en garnið er svo fínlegt að ég held ég muni alveg getað teygt pínu á því til að það passi við bakstykkið.

Myndprjón opnaði fyrir mér alveg nýja vídd. Allt öðruvísi en þegar við prjónum lopapeysumynstur því bandið aftan á fer ekki yfir mynstrið heldur þarf maður að vera með marga spotta hangandi í “myndinni”. Þetta var þó nokkur áskorun en eftir mörg Youtube myndbönd og fjárfestingu í rafrænni myndprjónsbók (myndprjón = intarsia knitting) gekk þetta að lokum og var bara nokkuð skemmtilegt… seinlegt, en skemmtilegt 🙂 – ég fann líka þessa snilldar ábendingu á netinu; að vefja garni upp á þvottaklemmur, kemur sér líka vel í útsaum, þ.e. vefja útsaumgarninu upp á þvottaklemmur.

Prjónakjóll01

Nú á ég bara eftir að sauma bak- og framstykkin saman og máta kjólinn á Örnu mína. Það er orðið ansi langt síðan ég byrjaði á kjólnum. Mér sýnist hann passa á hana, hann gæti þó verið  heldur stuttur… ég redda því þá bara með blúndu neðst eða hekla eitthvað sætt neðan á hann… fullkominn 17. júní kjóll!

Ég set inn myndir af henni þegar hún verður komin í hann 🙂

DSC_0009