Myndprjón

DSC_0008

Í fyrra (síðsumars) var ég stödd í Storkinum að kaupa eitthvað smálegt garn… þá henti mig, það sem stundum gerist, að ég fór að fletta blöðum og bókum. Nýjasta Debbie Bliss (spring/summer 2012) blaðið lá á borði og ég fór að blaða í gegnum það. Sá ég þá þennan líka sæta rauða “sailor” prjónakjól á litlar dúllur. Og, eins og hefur gerst áður, rankaði ég allt í einu við mér út í bíl með poka í hendi… alveg steinhissa kíkti ég í pokann og þá var bara eins og einhver hefði keypt handa mér blaðið OG garnið í kjólinn… það átti bara eftir að setja kjólinn saman!!!

Prjónakjóll06

Eftir að hafa prjónað talsvert úr íslensku ullinni (sem ég b.t.w. elska!) og flest prjónað í hring, langaði mig að prófa að prjóna svona “alvöru” flík úr fínlegra garni. Uppskriftin er auðvitað ekkert nema skammstafanir og það getur verið auðvelt að hræðast svoleiðis og henda þessu frá sér. Svo er svo skrítið að það er eins og útlenskir prjónarar hafi aldrei heyrt um að prjóna í hring! Alltaf prjónað fram og til baka, bakstykki og framstykki prjónuð sér og svo saumuð saman á eftir… jæja, ég var ákveðin í að komast yfir hræðsluna og hófst handa. Ég byrjaði á bakstykkinu, fram (sl) og til baka (br), fram (sl) og til baka (br), fram (sl) og til baka (br)… milljón umferðir. Vá hvað það er leiðinlegt að prjóna brugðið til baka, eins og það er gaman að spítta í og prjóna slétt að framan! Bakstykkið gekk annars bara vel, ekkert mál að forma ermar og auðveldara að skilja uppskriftina en maður hefði haldið í byrjun.

Prjónakjóll03

Nú kemur snilldin! Ég tók næstum klárað bakstykkið með mér norður á Löngumýri og þar sá Fríða Ágústsdóttir mig vera að prjóna… hún laumaði fingrunum í prjónana og sýndi mér miklu skemmtilegri leið (finnst mér) til að prjóna brugðið til baka… og mér finnst sú aðferð líka gefa miklu fallegra prjón. Maður snýr ekki stykkinu til að prjóna brugðið heldur prjónar maður til baka frá vinstri til hægri. Og þetta er ekkert flókið heldur (einfaldara en “okkar brugðning”). Þegar ég kom heim fann ég þessar leiðbeiningar á Youtube ef þið viljið kynna ykkur þetta.

Fríða sagði mér að hún hefði lært þessa aðferð þegar hún fór eitt sinn á námskeið í myndprjón. Stundum er eins og maður eigi að hitta ákveðna einstaklinga, engar tilviljanir. Það vill svo til að framstykkið á kjólnum er með myndprjóni í lokin!! Ég ákvað því að prjóna framstykkið allt svona. Það verður að vísu aðeins fastar prjónað en garnið er svo fínlegt að ég held ég muni alveg getað teygt pínu á því til að það passi við bakstykkið.

Myndprjón opnaði fyrir mér alveg nýja vídd. Allt öðruvísi en þegar við prjónum lopapeysumynstur því bandið aftan á fer ekki yfir mynstrið heldur þarf maður að vera með marga spotta hangandi í “myndinni”. Þetta var þó nokkur áskorun en eftir mörg Youtube myndbönd og fjárfestingu í rafrænni myndprjónsbók (myndprjón = intarsia knitting) gekk þetta að lokum og var bara nokkuð skemmtilegt… seinlegt, en skemmtilegt 🙂 – ég fann líka þessa snilldar ábendingu á netinu; að vefja garni upp á þvottaklemmur, kemur sér líka vel í útsaum, þ.e. vefja útsaumgarninu upp á þvottaklemmur.

Prjónakjóll01

Nú á ég bara eftir að sauma bak- og framstykkin saman og máta kjólinn á Örnu mína. Það er orðið ansi langt síðan ég byrjaði á kjólnum. Mér sýnist hann passa á hana, hann gæti þó verið  heldur stuttur… ég redda því þá bara með blúndu neðst eða hekla eitthvað sætt neðan á hann… fullkominn 17. júní kjóll!

Ég set inn myndir af henni þegar hún verður komin í hann 🙂

DSC_0009

Comments

  1. Fríða says:

    Takk elskan, ætlaði einmitt að spyrja þig í gær þegar ég sá mynd af kjólnum á face hvernig gengi.

Trackbacks

  1. […] Kjóllinn hennar Örnu er loksins tilbúinn. […]

join the conversation

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.