Sveitasæla, Jón og tuskur

Einhver talaði um að fríið væri gott ef þú mannst ekki lykilorðin þín í tölvuna þegar þú kemur aftur. Ég held að það sé mikið til í því. Það er ekki nóg að hvílast líkamlega heldur verður andlega hliðin að fá pásu líka. Við fjölskyldan fórum upp í bústað um mánaðarmótin og vorum þar meira og minna í tvær vikur. Unglingarnir gátu þó ekki verið allan tíma sökum vinnu og feðgarnir (Eiki og Davíð) fóru til Akureyrar að keppa í strandblaki. Við yngri deildin (Arna og Dagur) vorum þó öll þrjú allan tíman enda elskum við sveitina. Ég hvílist hvergi eins vel og þar og felst sú hvíld ekki síst í að elda, baka, sauma, hekla og prjóna.

Ég nýtti tíman vel, kláraði lopapeysu á Davíð sem ég byrjaði á fyrri næstum árið síðan, heklaði tvær tuskur og komst á flug í útsauminum

Hér eru nokkrar myndir

Lopapeysa:

Uppskrift: “Jón” – Bók: Lopi 31

Tuskur: “Litagleði” – Bók: Heklaðar tuskur í eldhúsið og baðherbergið

Útsaumur: Kaffe Fasset, keypt í Storkinum

Ný krummapeysa

DSC_6212

Dagur litli stækkar og stækkar, verður brátt 2ja ára og því fylgja auðvitað ný föt. Hann byrjaði á leikskóla í haust og var farið að vanta nýja hlýja peysu. Og þegar slík tilfelli koma upp “neyðumst” við prjónakonurnar til að hefja prjónana úr slíðrum!

Ég er svo hrifin af Krummapeysumynstrinu hennar Dagbjartar í Litlu prjónabúðinni að sama hvað ég reyndi að finna nýtt mynstur í peysu handa honum endaði ég alltaf aftur á Krumma… það varð því úr að ég keypti garn í nýja Krummapeysu en ákvað að hafa hana í öðruvísi litum en þá fyrri. Gráa í grunninn og dökkbrúna krumma. Þetta garn (lamaullin) er alveg dásamlegt, mýkra en léttlopinn og kemur alveg í staðinn fyrir hann (ég eeelska samt lopann líka!). Frábært fyrir þau kríli sem tooooga í hálsmálið með vanþóknun og setja upp stingu-kláðasvipinn við lopapeysum svo hjarta prjónakonunnar er við það að bresta 🙂

Hér er litli sykursnúðurinn í peysunni sinni og með uppáhaldið sitt, hann Bangsa:

DSC_6206

DSC_6203

DSC_6215

Snið: Krummapeysa eftir Dagbjörtu hjá Litlu prjónabúðinni
Bók: Saumaklúbburinn, Stóra prjónabókin og svo fæst uppskriftin hjá Litlu prjónabúðinni
Prjónar: 4,5 mm og 5,5 mm
Garn: Lamaull frá Strikkebogen (fæst hjá Litlu prjónabúðinni)
Stærð: 2ja ára

Og hér er Dagur í peysunni sem ég prjónaði á hann í ársbyrjun 2014 🙂

DSC_7573

Krummapeysa

DSC_7573

Það er þó nokkuð síðan ég bloggaði síðast — var upp í bústað — en ég hef ekki setið auðum höndum.

Þessa peysu kláraði ég þó nokkru áður en ég fór í bústaðinn en beið með að ganga frá endunum þar til ég kom þangað. Síðan skolaði ég úr henni eftir að ég kom heim og nú er þetta mest notaða útipeysan hans Dags.

DSC_7564

Ég hef fetað í fótspor margra prjónakvenna (og manna örugglega líka) sem hafa prófað að skipta út létt lopanum fyrir lamaullina frá Strikkebogen sem fæst í Litlu prjónabúðinni. Þessi ull er undursamlega mjúk og stingur ekki eins mikið og lopinn (finnst mér a.m.k.). Annars finnst mér lopinn alltaf æðislegur en bara allt öðruvísi og gaman að breyta aðeins til. Það er líka þessi fallega matta, úfna áferð á lamaullinni eins og létt lopanum og ullin fæst í mörgum litum hjá Litlu prjónabúðinni.

Annars fórum við Arna um daginn í Virku og hún fékk að velja sér flónelefni í bakið á jarðaberjateppinu sínu. Best að drífa sig að stinga það! Svo er ég núna að prjóna röndótta peysu á Andreu úr tvöföldum plötulopa, set inn myndir þegar hún verður búin. Ég er líka að klára að sauma allar joggingbuxurnar á Örnu og Dag. Arna er byrjuð að nota fyrstu buxurnar og er hæstánægð með þær. Oh, ef ég gæti nú bara prjónað með tánum og saumað í höndum á sama tíma!!

DSC_7560

Snið: Krummapeysa eftir Dagbjörtu hjá Litlu prjónabúðinni
Bók: Saumaklúbburinn, Stóra prjónabókin og svo fæst uppskriftin hjá Litlu prjónabúðinni
Prjónar: 4,5 mm og 5,5 mm
Garn: Lamaull frá Strikkebogen (fæst hjá Litlu prjónabúðinni)
Stærð: 1 árs

DSC_7558

DSC_7550

Á prjónunum og nálinni

DSC_7345

Krummapeysa eftir Dagbjörtu í Litlu prjónabúðinni. Ég er búin að heyra svo margar dásemdarsögur um lamaullina sem hægt er að nota í stað léttlopans [þó mér finnist léttlopinn frábær] — ég prjónaði þessa peysu á Dag litla sem verður 11 mánaða eftir 2 vikur. Þessi ull er svakalega mjúk og áferðin ekki ósvipuð og í léttlopanum, þ.e. mött og loðin 🙂 — ég á bara eftir að ganga frá endum og þvo peysuna.

DSC_7357

Svo er ég að vinna að þessu jarðaberjateppi handa Örnu (5) [nei, ég saumaði það ekki á Singer vélina, bara þykjast fyrir myndatökuna :)]. Dóra Dís vinkona er búin að nota þessar jarðaberjablokkir í drasl og döðlur og ég bara varð að prófa enda á ég svo mikið af fallegum bleikum og rauðum efnum. Það er svakalega gaman að sauma þessar blokkir [sniðug aðferð við þetta græna] en þær koma úr teppinu Strawberry Social frá Pattern Basket. Það kom enginn eigandi til greina nema Arna því frá því hún gat talað hefur hún verið með jarðaber á heilanum. Þegar hún fer í bað útbýr hún þessa líka fínu jarðaberjasúpu [úr vatni og sápu!] sem allir fjölskyldumeðlimir verða að “gæða” sér á og í eftirrétt fáum við jarðaberjate. Hún er líka alltaf að biðja okkur um að hafa alvöru jarðaberjasúpu í matinn, hahaha, ég hafði ekki einu sinni haft hugmyndaflug í að til væri jarðaberjaSÚPA en á endanum gúgglaði ég það og það eru fullt af jarðaberjasúpu-uppskriftum til þarna úti, flestar bornar fram kaldar — finnst það ekkert voðalega girnilegt en maður veit aldrei… 🙂

DSC_7360

DSC_6528

Hvít kertaljósahúfa

DSC_7356

Hér er hvíta kertaljósahúfan tilbúin.

Þessi er með sömu stærð af stroffi og sú blágræna — grænbláa (??) — en eftir stroffið jók ég meira út en á henni. Það kemur mun betur út á fullorðnum (a.m.k. miðað við mína prjónfestu). Blágræna húfan er í rauninni of lítil á bæði mig og Andreu (11) svo Arna (5) fær að eiga hana 🙂

Ef ég geri eina enn [sem er mjög líklegt] þá myndi ég líka gera stroffið aðeins breiðara.

Dúskinn keypti ég í Handprjón.is

DSC_7351

DSC_7329

DSC_7325

Kross

DSC_6994

Hér er peysan Kross úr Ístex Lopabók nr. 28

Uppskriftin gerir ráð fyrir fimm litum en mér fannst alveg nóg að nota þrjá. Þessi peysa er fljótprjónuð enda enginn tvíbandaprjón í mynstri. Það var dálítil áskorun að prjóna gatamynstrið á ermunum því lykkjurnar voru alltaf að detta af sokkaprjónunum. Ég brá því á það ráð að nota 40 cm hringprjón þegar prjóna átti gataumferðina og prjóna svo aftur yfir á sokkaprjónana.

Uppskrift: “Kross” — Lopi nr. 28 frá Ístex
Garn: Ístex Létt lopi
Prjónar nr. 6,5 (stroff 5,5)
Stærð: M

DSC_7000

DSC_7001

DSC_7006

DSC_7008

Helgin

DSC_6832

Þar kom að því að fjölskyldan yrði á barðinu á einu stykki flensu! Eiki (eiginmaðurinn) kom fyrstur heim með hálsbólgu og hita og síðan tók Dagur litli við. Ég þurfti auðvitað að kyssa og knúsa litla snáðann svo mikið (lét Eika alveg vera) að það var ekki komist hjá því að flensan næði mér líka. Það eina sem ég hef getað gert er að hjúkra öðrum og liggja svo sjálf upp í sófa.

Á meðan ég hjúkraði hinum bakaði ég þessa dásamlega góðu möndluköku. Helga vinkona gaf mér svona köku þegar ég heimsótti hana síðast og ég bað hana um uppskriftina. Ég ætla að heyra í Helgu á morgun og athuga hvort ég megi ekki birta uppskriftina hér — nú er líka komin pressa á hana, kannski er þetta gömul fjölskyldu-uppskrift sem Helgu ber að taka með sér í gröfina?!!! :0

DSC_6807

DSC_6811

Ég náði líka að komast á útsöluna í Föndru, Dalvegi og kaupa efni í fjórar buxur á Örnu (5). Hún er alveg orðin buxnalaus og vill helst bara ganga í leggings eða joggingbuxum. Sniðið er búið að liggja á stofuborðinu í næstum viku en ég vona að ég nái að sníða í buxurnar og sauma þær í vikunni.

DSC_6735

Að lokum náði ég að klára þessa peysu á sjálfa mig. Hún heitir Kross og ég er úr Ístex blaði nr. 28. Léttlopapeysa og afar einföld – tek mynd af henni tilbúinni á morgun og sýni ykkur.

DSC_6725

Vetrarríkið fyrir helgi var dásamlegt, snjónum kyngdi skyndilega niður og ég náði þessum dásamlegu myndum, kvöldmyndirnar eru teknar rétt eftir miðnætti og það hefði mátt heyra saumnál detta, yndislegt!

Eigið góða viku framundan og ekki gleyma að gerast áskrifandi að blogginu hér til hliðar 😉
Berglind

DSC_6971

DSC_6974

DSC_6969

DSC_6978

DSC_6961

DSC_6945

DSC_6947

DSC_6937

DSC_6944

DSC_6917

DSC_6918

DSC_6920

DSC_6932

Bræðrapeysur

DSC_6451

Hér eru bræðurnir Davíð Freyr (10) og Dagur Freyr (9 mán) í næstum alveg eins peysum.

Ég var búin að setja inn myndir hérna af Degi litla í peysunni sinni en síðan hófst ég handa við peysuna hans Davíðs, enda langaði hann svo mikið til þess að hann og litli bróðir hans ættu eins lopapeysur 🙂

Davíðs peysa var tilbúin fyrir jól en ég náði aldrei að taka mynd af þeim saman í peysunum sínum. Loksins gafst tækifærið í dag. Peysurnar eru báðar unnar upp úr Ístex mynstri nr. 120. Peysan hans Dags litla er prjónuð úr einföldum plötulopa en Davíðs peysa er gerð úr tvöföldum plötulopa. Mér fannst líka hentugra að setja rennilás í peysuna hans Davíðs enda mæðir meira á henni

Flottir bræður og stollt móðir 🙂

DSC_6457

DSC_6462

Peysan Þula

DSC_6424

Hér er lopapeysa sem ég var að klára að prjóna á Örnu (5) mína. Hana var farið að vanta nýja peysu á leikskólann og ekki veitir af í þessum endalausa kulda og raka, brrr.

Mikið svakalega er ég ánægð með nýjasta Lopablaðið frá Ístex, nr. 33. Ég veit ekki hvort það er tilviljun en ég féll algerlega fyrir öllum uppskriftunum frá Dagbjörtu í Litlu prjónabúðinni. Þessi peysa, Þula, er ein af þeim. Mig langaði mikið að prjóna hana í gula litnum eins og Dagbjört sýnir hana í blaðinu en Arna bleika samþykkti það ekki og úr varð þessi litasamsetning. Það er samt ekkert meira af bleikum í þessari en kannski nýtur sá bleiki sín meira með hvítum 🙂

Ólíkt flestum lopapeysum (a.m.k. síðustu árin) er tölulistinn ekki heklaður heldur prjónaður. Mér finnst það koma svakalega vel út og gera hana enn gerðarlegri fyrir vikið. Svo var líka svo gaman að prjóna listann!

Stærðin er 6-7 ára, léttlopi á prjóna #3,5 og 4,5

DSC_6430

DSC_6428

DSC_6427

Ný lopapeysa

DSC_6434-2

Jæja, þá er janúar mættur – já og meira að segja hálfnaður – og mér finnst desember hafa liðið hjá á svona einu korteri.

Ég er rétt að jafna mig eftir desember, rútínan fer algerlega úr skorðum og svo fer öll orkan fyrstu vikurnar í að koma henni á aftur 🙂

Ég er lítið búin að sauma, en er þó að gera jarðaberjateppi handa Örnu og halda áfram með Swoon blokkirnar mínar.

Það góða við prjón og hekl er að það er næstum alveg sama hvað maður er þreyttur á kvöldin, það er alltaf hægt að hlamma sér upp í sófa (með jólabjór jurtate og nammi ávexti í skál) og prjóna/hekla nokkrar lykkjur. Þannig hefur mér tekist að prjóna fullt síðustu vikurnar.

DSC_6433

Ég keypti svakalega flott dúnvesti handa eiginmanninum í jólagjöf og datt þá í hug að það gæti verið flott að vera í lopa-kaðlapeysu innanundir. Mér sýnast kaðlar komnir aftur og það er svo gaman að prjóna þá. Ég nennti ekki að finna uppskrift svo ég tók peysu sem hann á fyrir og smellpassar og taldi hana út. Svo fann ég kaðlamynstur sem mér líkaði og yfirfærði yfir á gömlu peysuna. Ég áttaði mig ekki á því hvað kaðlarnir toga til sín og bolurinn varð fyrst allt of þröngur. Þá bætti ég við 26 lykkjur og þá varð bolurinn fínn. Ermarnar voru auðveldar, engir kaðlar á þeim en þegar kom að því að prjóna axlarstykkið ákvað ég að hafa laskaermar. Ég taldi 46 umferðir á gömlu peysunni og gerði laskaúrtöku í 2. hverri umferð, alls 23 sinnum. Hehehe, peysan er allt of stutt frá hálsmáli og niður að armvegi, ég þarf að rekja hana axlarstykkið upp (eða klippa það frá, það er svo erfitt að rekja upp plötulopa og mér finnst hann verða svo klesstur og ljótur að það er erfitt að prjóna úr honum aftur) og gera nýtt axlarstykki. Mér datt í hug að það gæti verið sniðugt að taka úr í 3. hverri umferð og hafa umferðirnar um 70 (1/3 fleiri). Kemur í ljós, þetta verður síðbúin jólagjöf (hann fékk hana samt á prjónunum í pakkann) 🙂

DSC_6437