Bræðrapeysur

DSC_6451

Hér eru bræðurnir Davíð Freyr (10) og Dagur Freyr (9 mán) í næstum alveg eins peysum.

Ég var búin að setja inn myndir hérna af Degi litla í peysunni sinni en síðan hófst ég handa við peysuna hans Davíðs, enda langaði hann svo mikið til þess að hann og litli bróðir hans ættu eins lopapeysur 🙂

Davíðs peysa var tilbúin fyrir jól en ég náði aldrei að taka mynd af þeim saman í peysunum sínum. Loksins gafst tækifærið í dag. Peysurnar eru báðar unnar upp úr Ístex mynstri nr. 120. Peysan hans Dags litla er prjónuð úr einföldum plötulopa en Davíðs peysa er gerð úr tvöföldum plötulopa. Mér fannst líka hentugra að setja rennilás í peysuna hans Davíðs enda mæðir meira á henni

Flottir bræður og stollt móðir 🙂

DSC_6457

DSC_6462

Árið 2013 – samantekt

Mosaic

Peysan Þula

DSC_6424

Hér er lopapeysa sem ég var að klára að prjóna á Örnu (5) mína. Hana var farið að vanta nýja peysu á leikskólann og ekki veitir af í þessum endalausa kulda og raka, brrr.

Mikið svakalega er ég ánægð með nýjasta Lopablaðið frá Ístex, nr. 33. Ég veit ekki hvort það er tilviljun en ég féll algerlega fyrir öllum uppskriftunum frá Dagbjörtu í Litlu prjónabúðinni. Þessi peysa, Þula, er ein af þeim. Mig langaði mikið að prjóna hana í gula litnum eins og Dagbjört sýnir hana í blaðinu en Arna bleika samþykkti það ekki og úr varð þessi litasamsetning. Það er samt ekkert meira af bleikum í þessari en kannski nýtur sá bleiki sín meira með hvítum 🙂

Ólíkt flestum lopapeysum (a.m.k. síðustu árin) er tölulistinn ekki heklaður heldur prjónaður. Mér finnst það koma svakalega vel út og gera hana enn gerðarlegri fyrir vikið. Svo var líka svo gaman að prjóna listann!

Stærðin er 6-7 ára, léttlopi á prjóna #3,5 og 4,5

DSC_6430

DSC_6428

DSC_6427

Lítil lopapeysa á Dag Frey

DSC_4653

Litla peysan er tilbúin og Dagur tekur sig aldeilis vel út í henni. Peysan er prjónuð fyrir ca 12 mánaða en ef við brettum upp ermar má vel byrja að nota  hana strax. Ég fór í Litlu prjónabúðina og fékk tölurnar þar. Þær koma ótrúlega vel út og gera peysuna svo þjóðlega eins og hún sagði eigandinn í búðinni – ótrúleg smekkkona þar á ferð! 🙂

DSC_4657

DSC_4677

Snið/mynstur: snið upp úr sjálfri mér en notaðist við þetta mynstur – sendið mér línu ef þið viljið vita hvaða umferðir ég tók út
Stærð: ca 12 mánaða
Garn: einfaldur plötulopi frá Ístex
Prjónar: 5,5 mm
Tölur: Litla prjónabúðin

DSC_4655

DSC_4663

DSC_4671

DSC_4659

Lítil peysa

DSC_4649

Þegar Dagur var nýfæddur lá mér svo mikið á að prjóna á hann litla vagnpeysu úr einföldum plötulopa að ég áttaði mig ekki á því hvað hann myndi stækka fljótt. Peysan var strax of lítil og passar bara á dúkkur 🙂

Ég er núna búin að prjóna aðra en á eftir að ganga frá endum, þvo hana og setja tölur og hnappagatalista. Davíð Freyr (10) varð alveg sjúkur í að fá svona peysu líka svo það verður líklega næsta verkefni, stækka peysuna í hans stærð

Neonvettlingar

DSC_4595

Allt gengur út á neonliti hjá krökkunum núna. Ég er ekki mikill aðdáandi sjálf – kláraði neonið þegar ég var 10 ára með neongult gel í hárinu og í neongrifflum og skræpóttum neonbol – en sá um daginn á facebooksíðu Prjónafjörs skemmtilega vettlinga fyrir krakka (og fullorðna) úr nýja neon-lopanum. Svo ég smellti í vettlinga fyrir Andreu og Örnu og er feykiánægð með útkomuna.

Uppskriftin að þessum röndóttu er fullorðinsuppskriftin (M/L) en mér finnst hún heldur stór. Andreu finnst æði að vera í svona stórum vettlingum en ég myndi þrengja þá næst um 4 lykkjur (gera 8-10 ára vettlingana). Þessir marglitu eru handa Örnu og prjónaðir í stærð 4-6 ára.

Þær ættu a.m.k. að sjást vel í umferðinni 🙂

DSC_4628

DSC_4591

DSC_4609

DSC_4627

Mynstur: Prjónafjör
Garn: Neon Álafosslopi frá Ístex
Prjónar: 4,5 og 5,5mm

Lítill herra kominn í danska fatnaðinn

DSC_4038

Vá hvað tíminn flýgur áfram á haustin!

Við létum skíra Dag Frey litla 15. september, skólinn og allar tómstundirnar (þær eru sko ekki fáar) að komast í rútínu og svo er alltaf eitthvað að gerast um helgar, alls kyns íþróttamót, bæði hjá fullorðna fólkinu og krökkunum, bústaðaferðir ofl.

Í síðustu færslu talaði ég um að setja inn mynd af Degi litla í nýju fötunum. Ég tók myndirnar sama dag en hef ekki bloggað neitt síðan.

Hér er hann í allt of stórum en dásamlegum fötum. Peysan er enn of stór en buxurnar sleppa. Ég þarf reyndar að setja teygju í mittisstroffið á buxunum því þær eru of víðar en annars er nóg að bretta upp á skálmarnar. Buxurnar eru mjúkar og hlýjar en ekki þannig að hann svitni í þeim. Peysan er hér með tvöföldu uppábroti en axlirnar leka niður handleggina, held ég bíði í 2-3 mánuði með að nota hana á hann. Eitthvað segir mér að þessi föt eigi eftir að stækka með honum 🙂

DSC_4046

DSC_4042

 

Dönsk prjónapeysa og buxur

DSC_4004

Fyrir nokkru bloggaði ég um prjónavesti sem ég gerði á Dag upp úr dönsku bókinni Babystrik på pinde 3. Nú er ég loksins búin með afapeysuna.

Ég get ekki sagt að mér hafi þótt neitt svakalega skemmtilegt að prjóna hana enda er hún öll prjónuð 2sl, 2br þannig að prjónið víxlast. Þannig verður perluprjón á milli sl/br lykkjanna. Þetta verður samt ótrúlega fallegt prjón og svakalega teygjanlegt. Og sæt er peysan og ótrúlega falleg við buxurnar úr sömu bók.

Buxurnar voru mjög svo fljótprjónaðar. Það varð nokkur afgangur af báðum litum og var sú sem afgreiddi mig í Litlu prjónabúðinni svo snjöll að benda mér á að prjóna aðrar buxur úr afgöngunum, hafa þær t.d. röndóttar, brúnar og grábláar eða t.d. bláar með brúnu stroffi.

Hér eru myndir af flíkunum en eigandinn var sofandi þegar myndatakan fór fram. Hann ætlar því að máta síðar og þá smelli ég eins og einni mynd af til viðbótar.

Þegar ég gerði prjónavestið var ég svo vitl… að prjóna það í stærð 0-3 mánaða. Ég er enn að troða honum í það blessuðum drengnum en ákvað að prjóna buxurnar og peysuna í stærðinni 12 mánaða. Ég er búin að kaupa garn í nýtt vesti og ætla að hugsa aðeins lengra fram í tímann þegar ég prjóna það…. aftur 🙂

Peysan

Bók: Babystrik på pinde 3
Uppskrift: Morfartröje, bls. 14
Stærð: 12 mánaða
Garn: Bomuld og uld frá Geilsk, Litla prjónabúðin
Prjónar: 2,5 mm og 3,0 mm
Tölur: Litla prjónabúðin

DSC_4006

DSC_4007

Buxurnar

Bók: Babystrik på pinde 3
Uppskrift: Bukser, bls. 12
Stærð: 12 mánaða
Garn: Bomuld og uld frá Geilsk, Litla prjónabúðin
Prjónar: 2,5 mm og 3,0 mm

DSC_4016

 

DSC_4025

Ó, og eitt enn… ef þetta eru ekki skilaboð frá Móður náttúru um að halda sig bara inni í dag og prjóna og sauma þá veit ég ekki hvað!! 🙂

DSC_4028

DSC_4030

 

Þvottaklemmupoki Helgu

DSC_3491

Helga vinkona (Einarsdóttir) er ein sú klárasta handavinnukona sem ég þekki. Við kynntumst fyrst á Thimbleberrieskvöldum hjá Virku árið 2003. Við byrjuðum að spjalla og áttuðum okkur fljótt á því hvað við eigum mikið sameiginlegt. Vorið 2006 byrjaði ég að vinna á Verðbréfavaktinni hjá Glitni (nú Íslandsbanka). Ég mætti fyrsta daginn og var vísað í sætið sem ég átti að sitja í… á sama borði og Helga Einarsdóttir, beint á móti hver annarri!! Hehehe, greyjið samstarfsfélagarnir voru kaffærðir í bútasaumsumræðum, hrikalega gaman 🙂

Við erum enn að vinna saman á sömu hæð og á sama sviði þótt við séum ekki í sömu deild og það líður ekki sú vika að við skiptumst ekki á sniðum og sýnum hvor annarri nýjustu handavinnuna. Ég er í fæðingarorlofi núna en heyri samt í Helgu í hverri viku. Hún er komin í sumarfrí og þá fer hún alltaf (nánast) vestur í bústað foreldra sinna. Hún tekur með sér ákveðin saumaverkefni, oftast smáhluti (t.d. litla jólasveina, flöskupoka, buddur…) sem hún saumar í tonnavís. Í ár voru það þessir snilldar þvottaklemmu-pokar. Hún saumaði fullt af þeim og kom svo færandi hendi fyrir síðustu helgi heim til mín og gaf mér einn, heppin ég!

DSC_3499

Hún fékk hugmyndina þegar vinkona hennar keypti einn svona handa henni í útlöndum. Helga tók upp sniðið og fann út úr því sjálf (auðvitað) hvernig hún gæti útfært þetta. Síðan var haldið í Góða hirðinn og öll gamaldags herðatré sópuð upp og svo út í garð með herðatrén þar sem þau voru söguð niður til að stytta þau. Það er t.d. gaman að segja frá því að herðatréð í pokanum mínum er frá Hótel Loftleiðum þannig að segja má að ég hafi fengið þýfi að gjöf 🙂

DSC_3572-3

Helga er alltaf með smáatriðin á hreinu og gaf mér pokann með klemmum í og þessa líka sætu klemmu framan á – takk fyrir mig elsku Helga 🙂

DSC_3569-2

DSC_3504

DSC_3501

DSC_3488

Barnapeysa

DSC_2041

Ég vildi að ég gæti sagst hafa prjónað þessa peysu en það væri nú aldeilis óheiðarlegt af mér að gera það 🙂

Þessa dásamlegu ungbarnapeysu prjónaði Kristbjörg, mamma hennar Önnu, heimalingsins okkar… vinkonu Andreu. Hún gaf snáðanum okkar hana þegar hann fæddist og ég er búin að vera á leiðinni að skrifa um hana hér.

DSC_2046

Ofboðslega fallegt handverk og trétölurnar passa vel við. Því miður stækka ungarnir upp úr fötunum á korteri fyrstu vikurnar og ég náði ekki mynd af honum í henni… kannski ég reyni að troða honum í hana einu sinni enn til að ná mynd! 🙂

DSC_2051

Takk aftur fyrir okkur Kristbjörg!