Þetta sjal heklaði ég síðasta vetur. Ég byrjaði á blakmóti í Stykkishólmi í október og kláraði einhvern tíma eftir áramót.
Uppskriftin er frá Rowan (Rowan knitting and crochet magazin #50) en ég tímdi ekki að kaupa garnið frá Rowan svo ég fór með uppskriftina í næstu Lopa verslun og keypti Létt lopa í staðinn. Ég er ótrúlega ánægð með það en verð samt að segja að ég sé pínulítið eftir því að hafa ekki leyft mér smá lúxus og heklað það með Rowan garninu. Ég heyrði eitt sinn að maður ætti ekki að spara í handavinnuna sína, annað eins leggi maður í hana. Á hinn bóginn verð ég líka að segja að ég elska lopann og hann er alls ekki síðri, útkoman er bara allt önnur.
Mest af stykkinu heklaði ég á blakmótum og á meðan ég beið eftir ballerínunum mínum á æfingum. Þetta er ekta svona “on the go” verkefni, ein nál og alltaf sama endurtekningin (að vísu er endurtekningin 17 umferðir).
Það var svo gaman að hekla það að kannski hekla ég bara annað og þá úr Rowan garni. Ég myndi þá ekki loka því (strokk) heldur hafa það eins og trefil.
Fallegt verk og fallegt módel 🙂
Það er orð að sönnu að vinnan er yfirleitt það mikil að við ættum ekki að spara í efniskaupum en svona er það bara stundum. Flott sjal og módelið þitt er fallegt.